Látrabjarg
Látrabjarg á vestasta odda Íslands er eitt mesta fuglabjarg Evrópu, 14 kílómetra langt og nærri 450 metra hátt. Þarna er stormasamt og að auki gera miklir hafstraumar og þverhnípt hengiflug að verkum að bjargið sjálft er ófært öðrum en vönum sigmönnum. Ferðamenn geta því aðeins horft niður í bjargið eða milli bjargtanga ofan af grasivaxinni brúninni, eða af sjó þá sjaldan þarna er fært bátum.
Í Perlunni fá gestir að sjá magnaða eftirmynd af Látrabjargi: það er sem þeir standi í fjöruborðinu og horfi upp í hengiflugið, kvikt af fuglalífi.
Stórfenglegt fuglalíf
Sjófuglar verpa fjölmargir saman í byggðum, gjarnan í bröttum björgum við ströndina, eins og Látrabjargi, til að verjast afræningjum og auðvelda fæðusókn í sjó. Sérhver tegund verpur í sérvalinni hæð í berginu, þeirri sem hentar henni best.
Lundinn er sjófugl sem lifir aðallega á smáfiski sem hann raðar í gogginn. Hann er mun betri sundfugl en flugfugl og mikill kafari. Lundinn á sama maka ár eftir ár.