
Ísland – „ævi“ landsins
Saga náttúrufars á Íslandi
Saga Íslands hófst fyrir 64 milljónum ára og allar götur síðan hefur landið verið í stöðugri mótun. Þessa sögu má lesa í steingervingum, jarðlögum, goðsögnum og sagnfræði, auk síbreytilegrar þróunarsögu jurta og dýra.
Eldstöðvar, goshverir, jöklar og jarðskjálftar setja mark sitt á ótrúlega jarðsögu landsins. En það eru gagnkvæm áhrif lands og þjóðar, jurta og dýra, fjalla og hafs sem gera þetta land einstætt.
Í Perlunni er hægt að skoða sögu Íslands ‒ „ævi“ landsins ‒ á nýstárlegan og áhugaverðan máta.




Mývatn
Við Mývatn eru heillandi dæmi um allt sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða: svartir gígar, kraumandi leirhverir og einstakt jurta- og dýralíf.
Fyrir um tvö þúsund árum rann hraun úr stóru eldgosi ofan í stórt og djúpt stöðuvatn á svæðinu þar sem Mývatnssveit er nú. Þegar glóheitt hraunið lagðist yfir setlögin á botni vatnsins spýttist gufa upp í gegnum kólnandi hraunið og mótaði uppmjóa hóla með gíglaga dæld í miðju. Þetta er hinir svokölluðu gervigígar.
Hvítabjörn
Hvítabirnir eru stærstu landrándýr jarðar. Þeir geta orðið allt að fjórir metrar á hæð og 750 kíló að þyngd. Hafísinn er aðalheimkynni þeirra og þeir fylgja honum eftir á Norðurheimskautssvæðinu. Hvítabirnir ‒ líka kallaðir ísbirnir ‒ ná sjaldnast meira en 20 ára aldri en geta orðið eldri í dýragörðum.
Á Íslandi eru hvítabirnir flökkudýr utan hefðbundinna heimkynna sinna. Heimildir eru til um yfir 500 hvítabjarnarkomur síðan á landnámsöld.
Hvítabirnir eru friðaðir að lögum á Íslandi en heimilt er að fella þá ef þeir ógna fólki eða búfénaði.



Okjökull allur
Ok er 1170 metra hátt fjall í Kaldadal í Borgarfirði. Fjallið myndaðist fyrir um 300 þúsund árum og er hraundyngja með hringlaga gíg á tindinum. Jökull lá norðan í fjallinu fram á síðustu ár en er nú horfinn.
Haustið 2014 var lýst yfir fráfalli Okjökuls. Þá voru aðeins eftir þunnir sundurlausir ísflákar þar sem jökull stóð forðum. Nú flokkast Ok sem dauðís ‒ jökulís sem er hættur að skríða og fær ekki viðbót frá ákomusvæði. Okjökull er ekki fyrsti afskráði íslenski jökullinn en nafnkunnastur þeirra.
Steinasýning á útsýnispallinum
Margvíslegar jarðmyndanir er að sjá í nágrenni Reykjavíkur, allt frá eldfjöllum til fornra setlaga í bergi. Mið-Atlantshafshryggurinn gengur í gegnum Reykjanesskagann og þar má sjá flekaskil Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans. Höfuðborgin sjálf er byggð á basalthrauni, grágrýti, en Esja og Bláfjöll eru mynduð úr móbergi og setbergi.
Frá útsýnispalli Perlunnar er tilvalið að skoða jarðsöguna í tengslum við náttúruna og útsýnið
